Erlent

Samstarfsörðugleikar í írösku ríkisstjórninni

Forsætisráðherra íraks veifar hér til fréttamanna eftir fund með menntamálaráðherra í háskólanum í Bagdad í dag.
Forsætisráðherra íraks veifar hér til fréttamanna eftir fund með menntamálaráðherra í háskólanum í Bagdad í dag. MYND/AP

Íraska ríkisstjórnin hefur skipst í tvær fylkingar vegna örlaga fólksins sem var rænt í mannráninu í gær. Segja margir þeirra að vígahópar öfgatrúarmanna hafi sýnt að ástandið í Írak er ekki jafngott og sumir vilja vera láta.

Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki sem er shía múslimi, reyndi þó að draga úr ótta fólks og sagði að tekist hefði að frelsa flesta þá sem rænt var. Menntamálaráðherra Íraks, Abd Dhiab sem er súnní múslimi, sagði hins vegar að allt að 80 manns væri enn saknað. "Ég hef ákveðið að taka ekki frekari þátt í störfum ríkisstjórnarinnar þangað til þeim sem var rænt hafa verið frelsaðir." sagði hann ennfremur.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði aftur á móti að aðeins væru tveir til fimm enn í haldi mannræningjanna en afgangurinn, 37 manns, hefði verið frelsaður. Ástæðan fyrir þessu ósamræmi er hversu illa er haldið utan um gögn um starfsfólk í menntamálaráðuneytinu.

Al-Maliki bætti því við að þeir myndu gera allt sem í valdi þeirra stæði til þess að ná þeim sem framkvæmdu mannránið.

Þetta atvik vekur upp frekari spurningar um hæfni þess íraska öryggisafla sem að Bandaríkjamenn hafa verið að þjálfa upp undanfarið og hugsanlegt brotthvarf Bandaríkjahers frá Írak en það hefur verið mikið í umræðunni í Bandaríkjunum eftir þingkosningarnar sem fóru fram þar í landi 7. nóvember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×