Erlent

Flóðbylgjur í Japan reyndust 20 til 40 sm háar

Fiskimaður í Japan að forða sér undan flóðbylgjunni. Hann hefði þó hugsanlega getað staðið lengur í stafni.
Fiskimaður í Japan að forða sér undan flóðbylgjunni. Hann hefði þó hugsanlega getað staðið lengur í stafni. MYND/AP

Öflugur jarðskjálfti reið yfir Kúríleyjar norður af Japan í dag. Flóðbylgjuviðvörun var þegar gefin út af ótta við að öflug flóðbylgja myndi skella á norður- og austurströndum Japans og jafnvel ná að Kyrrhafsströnd Rússlands. Flóðbylgjurnar sem skullu síðan á japönsku eyjunni Hokkaídó voru mun minni en óttast var og eru þær sagðar hafa mælst 20 til 40 sentrimetrar á hæð.

Óttast var að flóðbylgjurnar næðu einum til tveimur metrum. Jarðskjálftinn sem skók Kúríleyjar mældist 8,1 á Richter og var því töluvert öflugur. Upptök hans voru tæpum 400 kílómetrum austur af Ítúrúp í Japan. Töldu sérfræðingar því rétt að senda út flóðbylgjuviðvörun fyrir Japan og Kyrrahafsströnd Rússlands.

Íbúar voru hvattir til þess að forða sér frá ströndum en ekki hafa borist fréttir af því hve miklar skemmdir urðu í skjálftanum eða að nokkur hafi týnt lífi þegar hann reið yfir.

Töluvert er um jarðskjálfta í Japan og hafa flóðbylgjur sem reyndust töluvert öflugri en þær sem spáð var í dag valdið miklum skemmdum áður. Viðvörunarkerfi Japana er því öflugt og allur vari er talinn góður. Send er út viðvörun innan þriggja mínútna frá skjálfta ef talið er að hann geti valdið mikilli flóðbylgju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×