Enski boltinn

Pardew hrífst af áformum Eggerts Magnússonar

Alan Pardew líst vel á áform Eggerts Magnússonar
Alan Pardew líst vel á áform Eggerts Magnússonar NordicPhotos/GettyImages

Alan Pardew, stjóri enska úrvalsdeildarliðsins West Ham, segist hafa átt mjög góðan fund með Eggerti Magnússyni og fullvissar stuðningsmenn liðsins um að þeim hefði líkað vel að heyra áform Íslendingsins þar á bæ ef af fyrirhuguðum kaupum hans á félaginu verður.

Talið er víst að nú fari að draga til tíðinda á allra næstu dögum um það hvort það verður hópur Eggerts eða hópur Íranans Kia Joorabchian sem eignist félagið. Pardew segist viss um að Eggert og félagar séu réttu mennirnir til að leiða West Ham inn í nýja og spennandi tíma.

"Blaðamenn vissu reyndar af þessum fundi okkar Eggerts löngu á undan mér, en hann var góður og ég get fullvissað stuðningsmenn West Ham um að þeir hefðu viljað heyra það sem Eggert sagði við mig. Hann hefur að mínu mati nokkuð góða hugmynd um það hvað hann vill gera við félagið og mér leið vel eftir fund okkar - rétt eins og eftir að ég hitti Joorabchian.

Báðir aðilar virðast ákveðnir í að koma West Ham í Meistaradeildina og þó við séum augljóslega ekki í aðstöðu til að láta okkur dreyma um það akkúrat í augnablikinu, hljótum við að geta hert róðurinn fljótlega eftir yfirtöku rétt eins og t.d. Aston Villa hefur gert. Það eina sem stendur okkur fyrir þrifum í augnablikinu er óvissan og því vona ég að þetta mál fari að leysast fljótlega," sagði Pardew, en svo virðist sem bæði Eggert og Joorabchian hafi lofað að leyfa honum að gegna stöðu knattspyrnustjóra áfram, þó gengi liðsins hafi verið afleitt framan af vetri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×