Erlent

SÞ: Ályktun samþykkt

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gærkvöldi ályktun þar sem Ísraelar eru hvattir til að kalla herlið sitt heim frá Gaza-svæðinu. Bandaríkjamenn greiddu atkvæði gegn ályktuninni og Ísraelar sögðu ekki tekið á mikilvægum atriðum málsins.

Boðað var til neyðarfundar Allsherjarþingsins í gær vegna ástandsins á Gaza-svæðinu. Tekist var á um ályktunina sem lögð var fram og sitt sýndist hverjum. Bandaríkjamenn ætluðu að greiða atkvæði gegn henni og Ísraelar sögðu ekki tekið tillit til ýmissa mikilvægra þátta. Hvergi væri minnst á Hamas-samtökin og þátt þeirra í átökunum.

Að lokum var komist að samkomulagi um orðalag sem fól í sér að árásir Ísraelshers á Beit Hanoun voru harmaðar, en þær hafa kostað fjölda almennra borgara lífið. Ísraelar voru einnig hvattir til að kalla herlið sitt heim frá Gaza-svæðinu og hætta árásum. Ályktunin var samþykkt með atkvæðum 156 fulltrúa. Sjö greiddu atkvæði gegn henni, Ástralar, Bandaríkjamenn, Ísraelar og fulltrúar fjögurra Kyrrahafseyja. Sex fulltrúar sátu hjá. Áheyrnarfulltrúi Palestínumanna á Allsherjarþinginu fordæmdi þá ákvörðun Bandaríkjamanna að greiða atkvæði gegn ályktuninni.

Það var fulltrúi Katar sem lagði upphaflegu tillöguna fram. Hann sagði árásir Ísraela fela í sér ítrekuð brot á þeim ályktunum sem þegar hafi verið samþykktar. Það grafi undan trúverðuleika Sameinuðu þjóðanna að láta þær óátaldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×