Enski boltinn

Gerrard bjargaði Liverpool

Steven Gerrard var betri en enginn í liði Liverpool í dag
Steven Gerrard var betri en enginn í liði Liverpool í dag NordicPhotos/GettyImages

Fyrirliðinn Steven Gerrard kom sínum mönnum í Liverpool til bjargar í dag þegar hann skoraði sigurmark liðsins gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, en þetta var fyrsta mark kappans í deildinni í vetur.

Manchester City átti nokkur góð færi í leiknum en náði ekki að nýta þau og þegar upp var staðið var það þrumuskot Gerrard eftir varnarmistök City sem tryggði þeim rauðu stigin þrjú í dag. Micah Richards, varnarmaður City sem á dögunum var í fyrsta sinn valinn í enska landsliðið, undirstrikaði fjölhæfni sína þegar hann lék í stöðu sóknartengiliðs og hefði með öllu átt að leggja upp mark fyrir Bernardo Corradi sem fór illa að ráði sínu og brenndi af.

Reading vann sinn þriðja leik í röð í deildinni þegar liðið skellti Fulham 1-0 á útivelli með marki frá Kevin Doyle úr vítaspyrnu. Ívar Ingimarsson var allan tímann í liði Reading og Brynjar Björn Gunnarsson kom inn sem varamaður - en Heiðar Helguson sat allan tímann á varamannabekk Fulham.

Aston Villa og Middlesbrough skildu jöfn 1-1 á Villa Park í Birmingham þar sem Malcom Christie skoraði mark gestanna en fyrirliðinn Gareth Barry jafnaði metin fyrir heimamenn. Leik Watford og Blackburn var frestað.

Leikur Bolton og Arsenal er síðastur á dagskránni í dag og þar hefur Bolton náð forystu eftir aðeins 9 mínútur. Þar var að verki Diagne-Faye og kom markið upp úr föstu leikatriði eins og svo oft áður hjá Bolton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×