Erlent

BA reynir að ná sambandi við 30 þúsund farþega vegna geislunar

Breska flugfélagið British Airways reynir nú að ná sambandi við þrjátíu þúsund flugfarþega eftir að leifar af geislavirka efninu sem varð fyrrverandi rússneska njósnaranum Alexander Litvinenko að bana fundust um borð í vélum félagsins.

Tvær vélar af gerðinni Boeing 767 hafa þegar greinst með leifar af geislavirka efninu en sérfræðingar eru um það bil að skoða þriðju vélina sem er í Moskvu, en grunur er um að leifar af efninu gætu fundist í henni.

Vélarnar hafa aðallega verið í ferðum á milli Moskvu og London og styrkir þetta grunsemdir um að Rússar, sem sögðust vera uppljóstrarar um morðið á rússnesku blaðakonunni Önnu Politkovskyju, hafi eitrarð fyrir Litvinenko. Flugvélarnar höfðu þó farið einstaka ferðir til Barcelona, Frankfurt og Aþenu.

Sérfræðingar segja geislunarhættuna í vélunum mjög lítla en engu að síður verði haft samband við alla, sem flogið hafa með vélunum að undanförnu. Hvorki er ljóst hvort um er að ræða hið sjaldgæfa polonium-210, geislavirka efnið sem fannst í líkama Litvinenkos né heldur hvernig efnið barst í flugvélarnar. Nánari upplýsingar um flugin sem um ræðir fást á vef flugfélagsins ba.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×