Innlent

Vinstri - grænir kæra sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun

MYND/Vísir

Borgarfulltrúar Vinstri - grænna hafa lagt fram kæru til félagsmálaráðuneytisins vegna sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun og farið fram á það að samþykki borgarstjórnar á sölu hlutarins verði fellt úr gildi.

Fram kemur í kærunni að greiðslan fyrir hlut borgarinnar sé annars vegar í formi þriggja milljarða króna peningagreiðslu og hins vegar í formi 23,9 milljarða króna skuldabréfa til handa Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar til 28 ára.

Bent er umsögn Lífeyrissjóðsins um að skuldabréfin hafi breytilega vexti og hafi því ekki þekkt verð. Þau séu því illseljanleg og þá aðeins með verulegum afföllum. Þá er enn fremur bent á að þau séu óskráð á skipulegan markað. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði sé þeim óheimilt að fjárfesta fyrir meira en tíu prósent af hreinni eign sjóðsins í óskráðum verðbréfum en samkvæmt upplýsingum Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar muni skuldabréf ríkisins vegna Landsvirkjunarhlutarins mynda 67 prósent af hreinni eign sjóðsins sem verði að teljast verulega umfram lagaheimildir.

Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi Vinstri - græna, segist hafa vakið athygli á þessu í umræðum um málið í borgarstjórn Reykjavíkur en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri svarað því til að heiðurmannasamkomulag hafi orðið á milli hans og fjármálaráðherra að reglugerð skyldi breytt til þess að kaupin gætu gengið í gegn.

Vinstri - grænir segja hins vegar að lagabreytingu þurfi til vegna þessa en ekki reglugerðarbreytingu og því þurfi að leita til Alþingis. „Heiðursmannasamkomulag" við einstaka ráðherra sem ekki hafa löggjafarvald hafi ekkert gildi í þessu sambandi.

Félagsmálaráðuneytið hefur móttekið kæruna og hefur samkvæmt 103. grein sveitarstjórnarlaga tvo mánuði til að ljúka yfirferð málsins.

Kæru Vinstri - grænna má sjá í heild sinni hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×