Erlent

Eyrarsundsbrúin annar ekki umferð

Eyrarsundsbrúin milli Danmerkur og Svíþjóðar.
Eyrarsundsbrúin milli Danmerkur og Svíþjóðar. MYND/Öresundsbroen Konsortium

Umferð um Eyrarsundsbrúna milli Danmerkur og Svíþjóðar er svo miklu meiri en gert var ráð fyrir að það horfir til vandræða. Svíar vilja skipa nýja Eyrarsundsnefnd til þess að taka á málinu. Danir hafa þegar ákveðið að bæta við vögnum sín megin frá.

Í upphafi höfðu menn áhyggjur af of lítilli umferð um Eyrarsundsbrú. Í nýrri spá Eyrarsundsstofnunarinnar kemur fram að of fáar lestarferðir yfir Eyrarsund geti hægt á samþættingu á svæðinu og orðið til þess að fólk ferðist frekar í einkabílum yfir sundið í stað lesta.

Sænski þingmaðurinn Lars-Ivar Ericson leggur til að skipuð verði ný Eyrarsundsnefnd.

Undanfarin ár hefur samþætting við Eyrarsund aukist mikið. 14.000 manns ferðast daglega yfir Eyrarsundsbrúna til vinnu. Frá þessu er greint í danska dagblaðinu Jyllands-Posten. Þetta eru 33 prósentum fleiri en á síðasta ári. Samkvæmt spá Eyrarsundsstofnunarinnar má búast við að það muni skorta á sæti fyrir mörg þúsund lestarfarþega sem ferðast yfir brúna.

Í spánni kemur fram, að þegar eru of fá sæti laus í lestunum og að árið 2010 er reiknað með að það muni vanta 3.618 sæti á leiðinni frá Málmey til Kaupmannahafnar milli kl. 06. 00 og 09.00 á morgnana.

Vegna mikilla þrengsla í lestunum verður bætt við vögnum í nokkrum lestarferðum dönsku lestanna (DSB) yfir brúna frá og með 7. janúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×