Innlent

Fjármálaúttekt á Byrginu lýkur í annarri viku janúar

MYND/GVA

Greiðslur ríkisins til Byrgisins hafa verið frystar að tillögu Ríkisendurskoðunar. Fær Byrgið því ekki fé úr ríkissjóði nú á fyrstu dögum ársins eins og til stóð. Fjármálaúttekt ríkisendurskoðunar á Byrginu lýkur í annarri viku janúar.

Ríkisendurskoðun hefur verið með fjármál Byrgisins til skoðunar um nokkurt skeið. Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu sendi Ríkisendurskoðandi bréf til ráðuneytisins á föstudag þar sem bent var á að bókhaldi Byrgisins væri svo áfátt að rétt væri að frysta allar greiðslur til meðferðarheimilisins.

Ákvað Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra að verða við þessari beiðni og fær því Byrgið ekki greiðslu úr ríkissjóði núna fyrsta virka dag janúarmánaðar. Að líkindum hefði þetta verið um þrjár milljónir króna en samkvæmt áætlun hefðu framlög ríkisins til Byrgisins árið 2007 verið tæpar 40 milljónir króna.

Frá árinu 1999 hefur Byrgið fengið tæplega 190 milljónir úr ríkissjóði. Frá því að greiðslur ríkisins til meðferðarheimilisins hófust hefur Byrgið haft þrjár kennitölur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×