Rúmlega tvítug kona var í dag dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í fjögurra mánaða fangelsi meðal annars fyrir líkamsárás og þjófnað. Í maí á þessu ári braust konan inn í íbúð á Suðurlandsvegi og reyndi að stela þaðan ýmsum hlutum. Húsráðendur komu að henni við iðju sína en konan réðst þá á annan þeirra og sparkaði í hann.
Konan var undir áhrifum lyfja og áfengis þegar hún braust inn og mundi lítið eftir árásinni. Hún var dæmd í fjögurra mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, þjófnað, gripdeild og umferðarlagabrot. Hún var jafnframt dæmd til að greiða konunni sem hún réðst á rúmlega þrjúhundruð þúsund krónur í skaðabætur.