Viðskipti innlent

Peningaskápurinn ...

Barningur vegna brjóstmáls

Danskar konur eiga sumar hverjar erfitt með að hneppa efstu tölum blússa og jakka sem að öðru leyti smellpassa, samkvæmt umfjöllun Nyheds­avisen í gær. Framleiðendur fatnaðar hafa brugðist við kvörtunum og bætt nokkrum sentímetrum við brjóstmálið í hönnun á nýjum fatnaði.

Greint er frá því að dönsku fataframleiðendurnir Jackpot og InWear hafi síðustu ár fengið athugasemdir frá um 200 verslunum í Danmörku um þennan vandræðagang. Þannig er medium stærðin frá Jackpot núna um tveimur sentimetrum víðari yfir brjóstið en áður. Breytingin er hins vegar rakin til þess að konur láta í auknum mæli bæta í brjóstin á sér sílíkonfyllingu og jafnvel til breyttra lifnaðarhátta sem valdið hafi breytingum á vaxtarlagi.

Sparnaðarstríð í boði Landsbankans

Verðstríð sem kemur til með að þyngja buddu breskra neytenda er á næstu grösum. Þessu heldur vefsíðan „The Thrifty Scot" fram en hún gefur sig út fyrir að veita almúganum einföld og góð ráð til að spara peninga. Verðstríðið mun í þetta sinn ekki koma til vegna harðrar samkeppni stórverslana, eins og vant er, heldur er það fjármálalegs eðlis.

Baráttan fari nú fram á markaðnum fyrir aðgengilega sparnaðarreikninga og hafi verið hrundið af stað með nýjum sparnaðarreikningi Landsbankans í Bretlandi, Icesave, sem veitir 5,2 prósenta ávöxtun á spariféð. Það mun vera töluvert yfir því sem aðrir bankar bjóða á sambærilegum reikningum. Vefsíðan varar lesendur sína þó við því að hlaupa upp til handa og fóta og skipta um banka. Telji þeir sig ekki geta haldið í það minnsta 250 pundum inni á reikningnum sé betra að skipta ekki, því við það falli vextirnir niður í 0,5 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×