Sport

Gatlin í átta ára keppnisbann

Justin Gatlin hefur verið sviptur heimsmeti sínu og dæmdur í átta ára keppnisbann
Justin Gatlin hefur verið sviptur heimsmeti sínu og dæmdur í átta ára keppnisbann NordicPhotos/GettyImages

Ferill bandaríska spretthlauparans Justin Gatlin er líklega á enda runninn eftir að hinn 24 ára gamli heims- og Ólympíumeistari og heimsmethafi í 100 metra hlaupi var í kvöld dæmdur í 8 ára keppnisbann fyrir að hafa í apríl fallið á lyfjaprófi í annað sinn á ferlinum. Hann hefur verið sviptur heimsmeti sínu í 100 metra hlaupi sem hann átti ásamt Asafa Powell.

Gatlin hefur gengist við 8 ára banni og losnar við að fara í ævilangt bann eftir að hafa samþykkt að ganga í lið með lyfjaeftirlitinu í baráttunni gegn lyfjamisnotkun og vegna þess að fyrra bannið sem hann fékk á ferlinum þótti nokkuð loðið.

Gatlin féll á lyfjaprófi þegar hann var í háskóla, en þá reyndust lyf sem hann tók við athyglisbresti vera ólögleg. Þetta var tekið til greina þegar mál hans var tekið fyrir að þessu sinni, en þegar hann féll á lyfjaprófinu í apríl var hinsvegar um að ræða hreina og klára steraneyslu. Gatlin á möguleika á að áfrýja þessari niðurstöðu og ekki er enn loku fyrir það skotið að hann gæti fengið keppnisbannið stytt eitthvað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×