Innlent

Byggja 200 þjónustuíbúðir

Frá fundinum Borgarstjóri og fulltrúi Samtaka aldraðra voru ánægðir með fundinn og eru bjartsýnir á árangur.
Frá fundinum Borgarstjóri og fulltrúi Samtaka aldraðra voru ánægðir með fundinn og eru bjartsýnir á árangur. MYND/Stefán

„Við ræddum undir­búning á byggingu um það bil 200 þjónustuíbúða og fórum svo vítt og breitt yfir allt sem viðkemur þjónustu við þennan hóp,“ segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri sem sat fyrsta fund samráðsnefndar Reykjavíkurborgar um málefni eldri borgara sem haldinn var í gærdag.

Fundurinn var haldinn samkvæmt samþykkt borgarráðs frá 15. júní síðastliðnum um að efna til formlegs samráðs við samtök eldri borgara um það hvernig Reykjavíkurborg getur betur komið til móts við þarfir eldri borgara. Vilhjálmur segir fundinn hafa verið ánægjulegan og hann hafi farið yfir áherslur borgarinnar í málefnum eldri borgara. „Það er svo margt sem hægt er að gera, bæta aðstöðu eldri borgara til að ferðast um borgina til dæmis og setja upp bekki svo fólk geti hvílst. Þetta snýst ekki bara um þjónustuíbúðir og heimaþjónustu.“

Jón Aðalsteinn Jónasson, sem situr í nefndinni fyrir Samtök aldraðra, segir sýn borgarstjóra á mun breiðari grundvelli en áður hefur verið kynnt í samráði við eldri borgara. „Mér líst afar vel á þessar tillögur ef þær ganga eftir.“ Vilhjálmur segir ekki um mikinn kostnað fyrir borgina að ræða. „Borgin þarf ekki að reka svona stofnanir, við getum gert samning við sjálfseignarstofnanir um að gera það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×