Erlent

Ítalska ríkisstjórnin slakar á lögum um eiturlyf

Menn geta nú gengið um á Ítalíu með allt að 40 jónur á sér.
Menn geta nú gengið um á Ítalíu með allt að 40 jónur á sér. MYND/Reuters

Ítalska ríkisstjórnin hækkaði í dag það magn af kannabisi sem löglegt er að vera með á sér án þess að vera handtekinn um helming. Samkvæmt nýju lögunum verður löglegt að vera með allt að 40 kannabisvindlinga á sér.

Stjórnarmeðlimir segjast vera að gera þetta til þess að koma í veg fyrir að ungt fólki fari á sakarskrá fyrir það eitt að fá sér einn kannabisvindling, eða jónu svokallaða.

Þegar kosið var um málið var meira að segja einn þingmaður sem tilkynnti að hann hefði gróðursett kannabisfræ í garði þinghússins. Hlé var þá gert á þinghaldi en mikil róstur urðu við þessa tilkynningu hans. Stuttu seinna dró hann þessa yfirlýsingu til baka og sagði að hann hefði bara sagt þetta til þess að ögra andstæðingum hinna nýju laga.

Stjórnarandstaðan segir þetta mikil mistök og gefa röng skilaboð til unglinga á Ítalíu. "Við héldum að mega hafa á sér 20 jónur væri mjög rausnarlegt og nytsamlegt til þess að skilja á milli þeirra sem eru í einkaneyslu eða sölu. Að hækka magnið upp í 40 jónur er hættulegt og skortir allan vísindalegan grunn fyrir því." sagði Carlo Giovanardi, stjórnarandstöðuþingmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×