Erlent

Hengdu sig í Guantanamo

Þrír fangar hengdu sig í Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu um helgina. Hernaðaraðgerð gegn Bandaríkjunum, segir yfirmaður fangelsisins.

Fangarnir þrír, einn Jemeni og tveir Sádí Arabar hengdu sig með vafningi sem þeir höfðu útbúið úr rúmfötum og fatnaði. Fangaverðir komu að þremenningunum í klefum sínum snemma á laugardagsmorgun, en þá var ekkert lífsmark með þeim og ítarlegar lífgunartilraunir báru ekki árangur.

Þetta eru fyrstu sjálfsmorðin sem vitað er um í fangabúðunum síðan þær voru reistar fyrir röskum fjórum árum. Nokkrum sinnum áður hafa fangar freistað þess að svipta sig lífi en það hefur ekki tekist fyrr en nú.

Atburðurinn hefur enn á ný beint athyglinni að meðferð fanga í Guantanamo, þar sem meira en fjögur hundruð eru í haldi án dóms og laga.

Mannréttindasamtök um allan heim segja sjálfsmorðin tilkomin vegna ómannúðlegrar meðferðar. Hrein og klár örvænting hafi rekið mennina út í opinn dauðann. Undir það taka fyrrverandi fangar í búðunum, sem segja óhjákvæmilegt að atbuður sem þessi myndi eiga sér stað með tilliti til þess hvernig aðbúnaður fanganna sé.

En bandaríski herinn lítur málið öðrum augum. Yfirmaður við fangabúðirnar segir að komið hafi verið fram við fangana af virðingu og þeir notið fullra mannréttinda. Því verði að líta á sjálfsmorðin sem hernaðaraðgerð gegn Bandaríkjunum.

Bush Bandaríkjaforseti segir atburðinn mikið áhyggjuefni og sem fyrr sé stefnt að því að tæma fangabúðirnar eins og fljótt og mögulegt sé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×