Erlent

Segir Bandaríkjamenn ekki á sigurbraut í Írak

Robert Gates við yfirheyrslurnar í Bandaríkjaþingi í dag.
Robert Gates við yfirheyrslurnar í Bandaríkjaþingi í dag. MYND/AP

Robert Gates, tilvonandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði við yfirheyrslur fyrir varnamálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings að hann teldi ekki að Bandaríkjamenn væru á sigurbraut í Írak.

Gates kom fyrir þingnefndina í dag en Bush Bandaríkjaforseti þarf staðfestingu frá þinginu til þess að Gates geti tekið við af Donald Rumsfeld sem sagði af sér sem varnarmálaráðherra í síðasta mánuði eftir harða gagnrýni vegna ástandsins í Írak.

Gates sagði einnig við yfirheyrslurnar í þinginu í dag að hann væri opinn fyrir nýjum hugmyndum að lausn vandans í Írak og sagði þróun mála í Írak ráða miklu um ástandið í Miðausturlöndum á næstu árum.

Beðið er eftir tillögum sérstakrar nefndar um málefni Íraks sem skilar af sér á morgun en reiknað er með að þar verði lagt til að bandarískir hermenn verði kallaðir heim frá Írak í áföngum á næsta eina og hálfa árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×