Sport

Fara í ísbað fyrir Íslandsferðina

Nokkrir leikmanna sænska landsliðsins voru gjörsamlega örmagna eftir leikinn gegn Spáni og fengu leikmennirnir Anders Svensson, Johan Elmander, Niclas Alexandersson og fleiri mikinn krampa í fæturna undir það síðasta. Eftir leikinn brá sjúkraþjálfari sænska liðsins, Paul Balsom, á það ráð að setja leikmennina í ísbað.

Það virkar þannig að leikmennirnir baða sig í ísköldu vatni í 90 sekúndur og fara síðan strax í sjóðandi heitt vatn í aðrar 90 sekúndur. Þessi rútína er gerð alls þrisvar sinnum.

„Þetta kemur blóðinu á hreyfingu og hindrar vöðvana í að stífna. Þetta getur reynst mjög mikilvægt fyrir leikinn gegn Íslandi,“ sagði Balsom og bætti því við að hann hyggist jafnvel láta alla leikmenn liðsins prófa ísbaðið fyrir miðvikudaginn. „Það er kalt á Íslandi og með þessu gæti líkaminn verið betur búinn fyrir þær aðstæður sem verða á Laugardalsvellinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×