Fjöldi leikja fer fram í riðlakeppni Evrópumóts félagsliða í knattspyrnu í kvöld og verður sjónvarpsstöðin Sýn með beina útsendingu frá viðureign Bayer Leverkusen og Tottenham sem hefst klukkan 19:20.
Tottenham getur tryggt sér sæti í 32 liða úrslitum keppninnar með sigri í kvöld, en á meðan liðinu hefur gengið afleitlega í ensku úrvalsdeildinni hefur það unnið alla fjóra leiki sína í Evrópukeppninni til þessa og fengið á sig aðeins eitt mark.
Nokkur meiðsli eru í herbúðum Tottenham en búist er við því að táningurinn Aaron Lennon verði klár í slaginn í kvöld. Þá er reiknað með því að Dimitar Berbatov verði í framlínu enska liðsins, en hann lék í mörg ár með Leverkusen.
Þýska liðið er sem stendur í þriðja sæti í riðlinum með aðeins eitt stig eftir jafntefli við Club Brugge, en liðið á leik til góða á Tottenham og Dinamo Búkarest sem situr í öðru sæti riðilsins.