Fótbolti

Cassano á að biðjast afsökunar

Antonio Cassano er einstaklega lunkinn við að koma sér í ónáð þjálfara sinna.
Antonio Cassano er einstaklega lunkinn við að koma sér í ónáð þjálfara sinna. Getty Images

Predrag Mijatovic, yfirmaður knattspyrnumála hjá Real Madrid og fyrrum fyrirliði liðsins, telur að Antonio Cassano skuldi þjálfara sínum og samherjum afsökunarbeiðni fyrir hegðan sína eftir að hafa verið skilinn eftir utan leikmannahópsins um síðustu helgi.

Þá vann Real Madrid 3-1 sigur á Gimnastic en Cassano fékk ekki tækifæri þar sem hann hafði móðgað þjálfarann Fabio Capello, að sögn spænskra fjölmiðla. Ekki er vitað hvað móðgunin fól í sér og vildi Mijatovic ekki fara út í nein smáatriði.

"Það eina sem ég get sagt er að ég tel að Cassano eigi að biðjast afsökunar á framferði sínu. Þetta er óheppilegt fyrir félagið og leikmanninn sjálfan en það er undir honum sjálfum komið að leiðrétta hlutina," sagði Mijatovic.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hinum 24 ára gamla Cassano lendir saman við Capello en þegar þeir voru saman hjá Roma fyrir rúmu ári síðan sektaði Capello leikmanninn oftar en einu sinni vegna agavandamála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×