Skoðun

Verðlagseftirlit almennings

Jón Sigurðsson skrifar
Í tengslum við lækkun virðisaukaskatts, vörugjalda og tolla hinn 1. mars hefur viðskiptaráðuneytið efnt til viðræðna og samninga við ýmsa aðila sem tengjast eftirliti með verðlagsþróun í landinu.

Mikil ástæða er til þess að allur almenningur fylgist líka vel með á næstunni – eins og reyndar endranær. Ekkert jafnast á við virkt verðlagseftirlit neytendanna sjálfra í búðunum. Að sama skapi geta almennir fjölmiðlar haft mjög mikið að segja.

Alþýðusamband Íslands heldur uppi verðlagseftirliti og samanburðareftirliti með helstu matvöruverslunum í landinu. Nú hefur viðskiptaráðuneytið gert um það samning við verðlagseftirlit ASÍ að það geri sérstakt átak í þessum efnum á komandi vikum.

Neytendasamtökin halda uppi margháttaðri þjónustu við almenning, bæði upplýsingamiðlun og kvartanaþjónustu. Viðskiptaráðuneytið hefur samning við Neytendasamtökin um þessa þjónustu, og nú hefur líka verið samið við þau um sérstakt átak á næstunni.

Neytendastofa hefur fjölmörgum mikilvægum hlutverkum að gegna. Meðal annars hefur hún fylgst með verðlagi í veitingahúsum og gistiþjónustu. Nýlega gerði viðskiptaráðuneytið samning við neytendastofu um verkefni á þessu sviði á komandi vikum.

Hagstofa Íslands fylgist með verðlagsþróuninni mánuð fyrir mánuð og eru upplýsingar frá henni almennt viðurkenndur grundvöllur. Þá hefur Samkeppniseftirlitið um skeið unnið að athugun á samkeppnisaðstæðum í íslenskri smásölu- og dagverslun. Enn má nefna embætti talsmanns neytenda sem skiptir verulegu máli fyrir neytendavernd í landinu.

En enn og aftur verður það ekki nægilega ítrekað að allur almenningur hefur mikilvægasta hlutverkinu að gegna á vettvangi verðlagseftirlits og annarra hagsmuna í þessum efnum. Mjög mikilvægt er að allur almenningur fylgist rækilega með og láti í sér heyra ef útlit verður fyrir að verslunin ætli að hirða til sín hlut af þeim skattalækkunum sem nú eru á döfinni.

Verslunin á náttúrlega ekki að taka neitt út úr þessum breytingum því að það eru stjórnvöld og ríkissjóður sem standa fyrir þeim og kosta þær almenningi til hagsbóta.

Höfundur er formaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×