Fækkað hefur um eitt blað á dönskum fríblaðamarkaði. Dato kom út í siðasta sinn í fyrradag, en hefur verið sameinað blaðinu Urban. Útgáfufélag beggja blaða er Berlinske Officin. Þar á bæ segja menn ljóst að ekki hafi verið markaður fyrir Dato sem fríblað dreift á heimili, en klárlega væri pláss fyrir blað sem dreift væri á förnum vegi og þar stæði Urban sterkt. Fjallað var um samrunann í dönskum miðlum í gær og kom þar fram ekki hafi gengið sem skyldi í auglýsingasölu hjá Dato, en útgáfu blaðsins var haldið út í um átta mánaða skeið.
Haft er eftir David Trads, ritstjóra Nyhedsavisen, sem Dagsbrún Media gefur út, að hann hafi búist við að Dato yrði lagt niður og áhrifin á Nyhedsavisen væru engin, þar á bæ héldi útgáfan áfram eftir sem áður.