Innlent

Umsvif íslenskra útgerða aukast í Afríku

Umsvif íslenskra útgerðarfyrirtækja í Afríku eru að aukast. Sjólaskip gera sjö skip út frá ströndum Marokkó og Máritaníu í Vestur-Afríku. Flaggskip íslenska flotans, Engey RE-1, er einnig á leið til veiða á sömu slóðum, á vegum dótturfélags Samherja.

Magnús Guðmundsson, sem var nýlega ráðinn skipstjóri á Engeynni, hefur veitt undan ströndum Vestur-Afríku í níu ár og er ánægður með veruna í Afríku. „Það er fínt að veiða þarna, alltaf gott veður og engar frosthörkur."

Magnús segir útgerðina allt öðruvísi ytra en hér heima. Skipin séu í raun fljótandi verksmiðjur sem komi ekki til hafnar nema á tveggja ára fresti. Með hjálp flutningaskips er landað og skipt um áhöfn á nokkurra mánaða fresti.

Bæði Engey og skipin sjö sem Sjólaskip gera út veiða makríl og sardínu ásamt öðrum fisktegundum undan ströndum Marokkó og Máritaníu. Kvóti Sjólaskipa í Marokkó er um áttatíu þúsund tonn en í Máritaníu er fiskveiðikerfi sem svipar til sóknardagakerfisins hér heima. Þar er aflinn meiri en í Marokkó að sögn Haralds Guðmundssonar framkvæmdastjóra, en Sjólaskip hafa gert út af ströndum Afríku í tíu ár.

Nákvæmar tölur um kvóta Engeyjar liggja ekki fyrir en Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, gerir ráð fyrir að hægt verði að gera þar út stóran hluta ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×