Viðskipti innlent

Sýningin Tækni og vit opnuð í dag

Stórsýningin Tækni og vit 2007 verður formlega opnuð í Fífunni í Kópavogi síðdegis í dag. Þetta er stærsta fagsýning tækni- og þekkingariðnaðarins sem haldinn hefur verið á Íslandi á þessu sviði. Geir H. Haarde forsætisráðherra setur sýninguna við hátíðlega athöfn en hún opnar fyrir gestum klukkan 18:00.

Í tilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar segir að rúmlega 100 sýnendur á öllum sviðum tækni- og þekkingariðnaðarins verði á sýningunni en hátt í 400 starfsmenn hafa lagt nótt við dag alla vikuna við uppsetningu sýningarsvæðisins.

Í dag og á föstudag verður Tækni og vit 2007 opin fagaðilum í tækni- og þekkingariðnaði og skyldum atvinnugreinum, en á laugardag og sunnudag verður almenningur einnig boðinn velkominn.

Á sýningunni verður að finna fjölda fyrirtækja úr tölvugeiranum, bæði hugbúnaðar-, vélbúnaðar- og netfyrirtæki, auk fjarskiptafyrirtækja, orkufyrirtækja iðntæknifyrirtækja, sveitarfélaga, opinberra stofnana og ráðuneyta, skóla, fjármálafyrirtækja og fjölmiðla.

Þá munu sýnendur kynna nýjungar í vörum og þjónustu en einnig veita margvíslega fræðslu um ýmislegt sem tengist tækni- og þekkingariðnaði.

AP sýningar standa að Tækni og vit 2007 í samstarfi við forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Samtök iðnaðarins, Háskólann í Reykjavík, Orkuveitu Reykjavíkur og TM Software.

Vefur Tækni og vits 2007






Fleiri fréttir

Sjá meira


×