Viðskipti innlent

Jákvæðir fyrir einkavæðingu

Karin Forseke, fyrrverandi forstjóri Carnegie og aðalráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu, segir vilja fyrir einkavæðingu í Svíþjóð. 
Fréttablaðið/Anton
Karin Forseke, fyrrverandi forstjóri Carnegie og aðalráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu, segir vilja fyrir einkavæðingu í Svíþjóð. Fréttablaðið/Anton

Vilji Svía til að einkavæða er fyrir hendi svo framarlega sem ferlið er gagnsætt og ljóst er að allir sitji við sama borð. Þetta sagði Karin Forseke, fyrrverandi forstjóri sænska fjárfestingabankans Carnegie, á fundi sem Sænsk-íslenska verslunarráðið hélt í gær.

Forseke segir að sú ríkisstjórn sem nú sitji við völd í Svíþjóð hafi lagt mikla áherslu á mál um einkavæðingu fyrirtækja í síðustu kosningum og að vilji sé fyrir því í Svíþjóð að einkavæða mörg ríkisfyrirtæki enda nauðsynlegt fyrir efnahaginn í Svíþjóð.

Forseke segir einkavæðingaferlið í Svíþjóð ganga hægt en örugglega og séu Svíar almennt ánægðir með hvernig hlutirnir hafi gengið fyrir sig til þessa.

Skiptar skoðanir eru á því hvort ferlið sé nógu gagnsætt hér á landi.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir að líkt og í Svíþjóð vilji menn að ferlið sé gagnsætt og að allir sitji við sama borð. Hvort þessi mál hafi tekist nógu vel í þeim tilfellum sem ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd, megi deila um en að huga þurfi vel að þessum málum svo ásættanleg niðurstaða fyrir sem flesta náist. - ss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×