Viðskipti innlent

AppliCon gullvottað

Per Falck Jensen, framkvæmdastjóri hjá AppliCon A/S, Jens Bager, framkvæmdastjóri hjá SAP A/S, og Kristján Jóhannsson, framkvæmdastjóri AppliCon.
Per Falck Jensen, framkvæmdastjóri hjá AppliCon A/S, Jens Bager, framkvæmdastjóri hjá SAP A/S, og Kristján Jóhannsson, framkvæmdastjóri AppliCon.

Þýski hugbúnaðarframleiðandinn SAP hefur veitt fyrirtækinu AppliCon gullvottun, en af um þrjátíu samstarfsfyrirtækjum SAP á Norðurlöndum hafa aðeins tvö náð þeim áfanga áður.

AppliCon, sem er alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar hér á landi, fær gullvottun SAP fyrir framúrskarandi árangur í sölu, þjónustu og þróun á SAP-lausnum, að því er fram kemur í tilkynningu. SAP hefur þróað og framleitt viðskiptahugbúnað í 35 ár og er einn stærsti framleiðandinn á því sviði á heimsvísu. Fyrirtækið styðst við net samstarfsaðila og veitir þeim vottun í samræmi við þekkingu innan fyrirtækjanna og árangur. Gullvottun er efsta stig vottunarkerfis SAP.

Um þessar mundir eru tíu ár frá því SAP-lausnir hófu innreið sína hér, en í október 1997 var stofnuð deild innan Nýherja með það fyrir augum að bjóða upp á SAP-lausnir. Deildin var hluti af hugbúnaðarsviði sem síðar var skilið frá Nýherja og fékk nafnið AppliCon árið 2005 í kjölfar þess að Nýherji keypti danska SAP-ráðgjafafyrirtækið AppliCon A/S. AppliCon rekur skrifstofur hér, í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi. Hjá fyrirtækinu starfa tæplega 200 manns og er áætlað að velta þess á árinu verði um þrír milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×