Viðskipti innlent

Landsbankinn gefur út 43,5 milljarða króna skuldabréf

Landsbankinn.
Landsbankinn.

Landsbankinn gekk í dag frá útgáfu á 500 milljóna evra skuldabréfi til fimm ára með breytilegum vöxtum. Þetta jafngildir 43,5 milljörðum króna og er fyrsta útgáfa Landsbankans á skuldabréfum í evrum síðan í október fyrir einu og hálfi ári. Útgáfan er liður í endurfjármögnun bankans á þessu ári.

Í tilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að vextir skuldabréfsins miðist við millibankavexti í evrum (EURIBOR) með 26 punkta álagi.

Aðalumsjón með útgáfunni höfðu Credit Suisse, RBS og SG CIB, með DZ Bank og Bayern LB sem aukaumsjónaraðila.

Þá segir að verulegur áhugi hafi verið fyrir þátttöku í láninu og voru áskriftarfjárhæðir tvöfalt hærri en útboðsupphæðin.

Landsbankinn hefur ekki gefið út skuldabréf á fjármálamörkuðum síðan 2006 vegna sterkrar lausafjárstöðu bankans, sem er meðal annars til komin vegna stóraukinna innlána.

Þá segir ennfremur að útgáfan komi í kjölfar tveggja útgáfa Landsbankans á síðasta ári sem báðar fengu alþjóðlega viðurkenningu. Önnur var 600 milljón evra sambankalán sem tekið var í júlí og hin 2,25 milljarða Bandaríkjadala skuldabréfaútgáfa í ágúst.

Sambankalánið í júlí fékk viðurkenningu frá The Banker sem „Icelandic deal of the year 2006". Þetta var stærsta sambankalán sem íslenskt fjármálafyrirtæki hafði tekið. Síðarnefnda útgáfan, lán upp á 2,25 milljarða Bandaríkjadali var heiðruð sem „Runner-up dollar investment grade deal of the year 2006" af Credit Magazine, að sögn Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×