Golf

Alfreð, Ottó og Sigmundur deila efsta sæti

Sigmundur Einar
Sigmundur Einar Heiða Helgadóttir
Alfreð Brynjar Kristinsson úr GR og þeir Ottó Sigurðsson og Sigmundur Einar Másson úr GKG deila efsta sæti eftir fyrsta hring af þremur á 2. stigamótinu á Kaupþings mótaröðinni sem fram fer á Korpúlfsstaðavelli. Þeir léku allir á 74 höggum, eða 2 höggum yfir pari. Mjög hvasst var í dag og þá gekk á með skúrum fyrir hádegi. Ákveðið var að fresta öðrum hringum sem átti að leika í dag vegna veðurs og verða því leiknar 36 holur á morgun ef veður verður hagstætt. Spáin gerir ráð fyrir að það verði ekki eins hvasst á morgun, 5-10 m/s, en í dag fór vindurinn mest í 18 m/s.

Það var greinilegt á skori keppenda að fyrri níu holurnar reyndust flestum erfiðari í dag. Aðeins einn keppandi náði að leika þær á pari, en það var hinn ungi og efnilegi Axel Bóasson úr GK. Hann lék hringinn á 75 höggum og deilir fjórða sæti með Magnúsi Lárussyni úr GKj. Sá sem lék lakast í dag var á 99 höggum og lék hann seinni níu á 52 höggum.

Ottó og Sigmundur voru mjög sáttir við spilamennskuna í dag miðað við þær aðstæður sem voru. "Ég held að ég geti bara verið ánægður með þetta skor. Það var mjög erfitt að leika í þessum mikla vindi og það þurfti að spá vel í hvert einasta högg. Ég reyndi að halda boltanum vel niðri á móti vindinum og það tókst bara nokkuð vel," sagði Ottó.

Sigmundur tók í sama streng: "Já, ég held ég geti verið nokkuð sáttur. Ég var að slá vel og reyndi að reikna með vindinum, en það var oft erfitt. Flatirnar voru ekki góðar, mikill sandur í þeim. Vonandi verður betra veður á morgun og þá er hægt að búast við betra skori en í dag," sagði Sigmundur Einar í samtali við Kylfing.is eftir hringinn.

www.kylfingur.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×