Viðskipti innlent

Glitnisáheit SOS til Sómalíu

SOS-barnaþorpin hafa ákveðið að senda alla þá fjármuni sem safnast samtökunum til handa í Glitnishlaupinu til Sómalíu.
SOS-barnaþorpin hafa ákveðið að senda alla þá fjármuni sem safnast samtökunum til handa í Glitnishlaupinu til Sómalíu.

SOS-barnaþorpin hafa ákveðið að senda þá fjármuni sem safnast vegna Reykjavíkurmaraþons Glitnis, sem fram fer næsta laugardag, til Sómalíu. Þrjátíu og átta einstaklingar hafa skráð sig í mara­þonið með það að markmiði að safna fé handa SOS-barnaþorpunum. Þar starfrækja samtökin barnaþorp, leikskóla, ungmennaheimili, tvo grunnskóla, verknámsstöð og spítala auk þess að sinna neyðarverkefnum þegar við á.

Mikil átök hafa verið í Sómalíu frá því snemma árs 2006 þegar stríð braust út milli pólitískra fylkinga. Her bráðabirgðastjórnar Sómalíu náði landinu á sitt vald um síðustu áramót en átök standa enn, sérstaklega í höfuðborginni Mógadisjú.

Í fréttatilkynningu frá SOS-barna­þorpunum kemur fram að sómalískir hermenn hafi nú sett upp tjaldbúðir þrjú hundruð metrum frá SOS-barnaþorpinu í Mógadisjú. Þeir hafi lokað öllum vegum sem leiða að þorpinu og SOS-spítalanum sem sérhæfður er í mæðravernd. Leyfa þeir engum nýjum sjúklingum að komast inn á spítalann. Starfsfólk SOS heldur störfum sínum áfram með þeim sjúklingum sem fyrir voru og ætlar ekki að yfir­gefa svæðið. Ríkisstjórnin hefur lofað að það fái að halda vinnu sinni áfram óhindrað þegar ástandið skánar. Mikil þörf mun því vera fyrir aðstoð til Sómalíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×