Fótbolti

Frank Rijkaard: Látið Ronaldinho í friði

Frank Rijkaard og Ronaldinho eru mestu mátar og styður hollenski þjálfarann stjörnuleikmann sinn fram í rauðan dauðann.
Frank Rijkaard og Ronaldinho eru mestu mátar og styður hollenski þjálfarann stjörnuleikmann sinn fram í rauðan dauðann. MYND/AFP

Frank Rijkaard, þjálfari Barcelona, hefur skipað fjölmiðlum á Spáni að láta Ronaldinho í friði, en brasilíski snillingurinn hefur verið harðlega gagnrýndur að undanförnu fyrir slaka frammistöðu. Rijkaard segir það ekki einum leikmanni að kenna að Barcelona sé ekki að spila eins það best getur.

Ronaldinho viðurkenndi það sjálfur í síðustu viku að hann hefði oft verið í betra formi, en slök frammistaða hans í síðustu leikjum Barcelona hefur orðið til þess að kynda undir orðróm þess efnis að hann sé á förum frá félaginu. AC Milan, Chelsea og nokkur félög í Bandaríkjunum eru sögð reiðubúin að greiða fúlgur fjár fyrir leikmanninn en Rijkaard segir af og frá að Ronaldinho verði seldur.

"Ronaldinho er ennþá lykilmaður fyrir okkur. Hann er líka hluti af liðinu og það verður að horfa á málið frá þeirri hlið. Ef að liðið er að spila illa, þá er það ekki bara vegna þess að einn leikmaður er að spila illa," sagði Rijkaard og átti þar við Ronaldinho.

"Ég skil ekki allan þennan æsing. Þið ættuð að horfa á hvað hann er búinn að leggja upp mörg mörk á tímabilinu. Og hvað er hann búinn að skora mörg mörk? Hvað hefur hann unnið marga leiki fyrir okkur? Látið okkur í friði og gefið okkur tækifæri á að koma hlutunum í rétt lag," sagði Rijkaard argur á blaðamannafundi fyrir leik Barcelona og Celta Vigo í kvöld.

Leikurinn er í beinni útsendingu á Sýn og hefst kl. 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×