Breski hnefaleikarinn Ricky Hatton segist alveg vera til í að mæta Floyd Mayweather aftur í hringnum þó Bandaríkjamaðurinn hafi rotað hann í bardaga þeirra í Las Vegas um síðustu helgi.
Hatton er nú að skoða næsta skref ásamt umboðsmönnum sínum. Til greina kemur að hann fari niður um vigt og berjist þar hugsanlega við menn eins og Junior Witter og Paulie Malignaggi - sem þegar hafa lýst yfir áhuga á að mæta Hatton.
Þá hefur verið til skoðunar sá möguleiki að Hatton berjist við Oscar de la Hoya á næsta ári. Hatton sjálfur er til í hvað sem er og segist óhræddur.
"Þetta veltur allt á því hvaða bardagar standa mér til boða. Það er verið að tala um hugsanlegan bardaga við De la Hoya eða jafnvel að mæta Mayweather aftur. Ég þarf bara að setjast niður og skoða mín mál. Besti eiginleiki minn sem boxara er að ég er gjörsamlega óttalaus og ég væri alveg til í að mæta Floyd aftur þó ég hafi gert mistök í síðasta bardaga. Alvöru meistarar halda áfram þó þeir lendi í mótbyr," sagði Hatton.
Hann þakkaði stuðningsmönnum sínum sérstaklega fyrir að hafa lagt á sig langt ferðalag yfir Atlantshafið. "Hver einasti hnefaleikari myndi gefa hægri handlegginn fyrir að fá svona stuðning," sagði Hatton.