Erlent

Vegið að viðkvæmum stofni górilla

Fjórar skepnur af hinum fágætu fjallagórillum fundust drepnar í þjóðgarðinum Virunga í Lýðveldinu Kongó á sunnudaginn. Górillurnar eru friðaðar enda í bráðri útrýmingarhættu með stofn sem telur um 700 skepnur. Um er að ræða eitt karldýr, eða silfurbak, og þrjú kvendýr.

Ekki er vitað hverjir voru að verki eða hvað þeim gekk til en yfirvöld Virunga rannsaka málið. Grunur beinist að skæruliðum Kongósku byltingarhreyfingarinnar sem hafa unnið óbætanlegt tjón á lífríki frumskóga Kongó. Fyrr á þessu ári voru þrjár górillur feldar af meðlimum Kongósku byltingarhreyfingarinnar.

„Að sjö skepnur hafi verið feldar á sjö mánuðum er hræðileg staðreynd og getur ekki viðgengist", segir í fréttatilkynningu frá Alþjóðanáttúruverndarsjóðinum (WWF).

Verið er að herða til muna eftirlit á griðasvæðum viðkvæms dýraríkis Kongó og kemur her landsins að verkinu.

Virunga-þjóðgarðurinn er einn af síðustu stöðum þar sem fjallagórillur lifa. Þar er að finna um 250 fjallagórillur af þeim 700 sem eftir eru í heiminum. Þjóðgarðurinn er elsti þjóðgarður Afríku. Hann var vinsæll áfangastaður ferðamanna áður en stríð braust út í Kongó árið 1998.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×