Innlent

Starfar ekki sem lögmaður aftur

Helgi Jóhannesson, formaður Lögmannafélags Íslands.
Helgi Jóhannesson, formaður Lögmannafélags Íslands.
Lögmannafélag Íslands hafði ekki hugmynd um að Róbert Árni Hreiðarsson væri grunaður um kynferðisbrot fyrr en fjallað var um málið í fjölmiðlum. Formaður félagsins segir að lögreglan ætti að hafa heimild til að tilkynna félaginu ef grunur leikur á að lögmaður hafi framið lögbrot. Róbert Árni mun að öllum líkindum aldrei starfa sem lögmaður á ný.

Róbert Árni var sem kunnugt er dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum. Brot Róberts Árna þóttu sérstaklega gróf með tilliti til þess að hann hefur í starfi sínu sem lögmaður verið verjandi meintra kynferðisbrotamanna og verið réttargæslumaður fyrir þolendur kynferðisbrota. Sem slíkur hefur hann meðal annars verið við yfirheyrslur í Barnahúsi.

Þrátt fyrir að rannsókn málsins hafi staðið yfir hjá lögreglu í um tvö ár þá frétti lögmannafélag Íslands ekki af því fyrr en fjallað var um það í fréttaskýringaþættinum Kompási fyrir rúmri viku síðan.

Helgi Jóhannesson, formaður Lögmannafélags Íslands segir að siðanefnd lögmanna hefði getað farið fram á að Róbert Árni yrði sviptur réttindum tímabundið á meðan rannsókn fór fram en til þess hefði félagið þurft að vita af því að rannsókn stæði yfir. Hann segir að lögreglan ætti að hafa heimild til eða vera skylt að tilkynna siðanefnd lögmanna ef lögmaður er grunaður um glæp.

Róbert Árni var sviptur lögmannsréttindum sínum í gær og tók sviptingin strax gildi. Að sögn Helga þá mun hann ekki starfa sem lögmaður aftur þar sem lögmönnum beri að vear með óflekkað mannorð. Það hafi Róbert Árni ekki nema forseti Íslands veiti honum uppreist æru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×