Erlent

Elskar ennþá górilluna

Óli Tynes skrifar
Bokito svipast um eftir einhverju að éta.
Bokito svipast um eftir einhverju að éta. MYND/AP

Fimmtíu og sjö ára gömul hollensk kona sem górilla beit í dýragarðinum í Rotterdam í gær, segir að hún elski ennþá górilluna Bokito. Konan segir í viðtali við hollenska dagblaðið Telegraaf að hún fari nær daglega í dýragarðinn ásamt eiginmanni sínum. Þau hafi tekið ástfóstri við Bokito og eigi meira að segja myndir af honum frá því hann var fjögurra mánaða gamall.

Bokito er nú ellefu ára gamall og heljargórilla burðum. Það greip því um sig nokkur skelfing í gær þegar hann slapp út úr búri sínu. Bokito er geðgóður api, en mun sjálfum hafa verið brugðið við það uppnám sem varð þegar hann fór að rölta um meðal þeirra sem voru að skoða hann.

Hann slæmdi höndunum í einhverja gesti en þegar hann kom að vinkonu sinni settist hann ofan á hana og byrjaði að bíta hana. Hann vann henni þó ekki alvarlegt tjón áður en hann stóð á fætur og rölti inn á næsta veitingastað þar sem hann settist að snæðingi. Þar var hann svæfður og fluttur aftur í búrið sitt.

Konan segir að þau hjónin muni fara og heimsækja Bokito aftur, um leið og hún komist á fætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×