Innlent

Stjórnarandstaðan vill auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. MYND/Vísir

Þingflokkar Samfylkingar, vinstri grænna og frjálslyndra vilja greiða fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum verði tekið upp í stjórnarskrá. Þingflokkarnir samþykkja jafnframt að afgreiðsla frumvarps til nýrra stjórnskipunarlaga, með slíku innihaldi, verði forgangsmál í störfum Alþingis það sem eftir lifir þingtímans.

Þingflokkar stjórnarandstöðu telja í ljósi mikilvægis málsins fyllilega réttlætanlegt að lengja þinghaldið um einhverja daga umfram það sem starfsáætlun gerir ráð fyrir ef með þarf til að ljúka afgreiðslu þess. Fulltrúar flokkanna í stjórnarskrárnefnd tilkynntu þetta á fundi nú síðdegis.

Steingrímur J. Sigfússon segir að sá efniviður sem liggi fyrir í álíti auðlindanefndar frá árinu 2000 og í tillögugerð vegna starfa stjórnarskrárnefndar sé nægur til að ljúka málinu. Í stjórnarsáttmála segir að ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá.

Össur Skaphéðinsson segir fráleitt af formanni Framsóknarflokksins að lýsa því yfir að þetta mál eigi ekki erindi inn í samræður við stjórnarandstöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×