Fótbolti

Viking hafnaði tilboði Tromsö í Hannes

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Þ. Sigurðsson í æfingagalla Stoke City er hann var á mála þar.
Hannes Þ. Sigurðsson í æfingagalla Stoke City er hann var á mála þar.

Norska blaðið Aftonbladet greindi frá því í dag að norska úrvalsdeildarliðið Viking hafi hafnað tilboði Tromsö í Hannes Þ. Sigurðsson.

Hannes gekk til liðs við Viking frá Bröndby í Danmörku í vor en fékk undir það síðasta fá tækifæri í byrjunarliðinu hjá Uwe Rösler, þjálfara Viking.

Þjálfari Tromsö, Steinar Nilsen, vill styrkja leikmannahópinn sinn með framherja fyrir næsta tímabil og sagði Morten Kræmer, yfirmaður íþróttamála hjá Tromsö, að liðið hefði lagt inn tilboð í Hannes en að því hafi verið að hafnað.

Hann segir þó að tilboðið hafi verið gott en það verði að koma í ljós hvort félagið leggi inn nýtt tilboð.

„Við viljum í það minnsta fá að ræða við Viking um þetta mál en það er margt sem þarf að taka tillit til í þessum efnum."

Viking er eins og stendur með fimm framherja á sínum snærum og sá sjötti er til reynslu hjá félaginu eins og er.

Umboðsmaður Hannesar, Jim Solbakken, kom af fjöllum þegar hann var spurður um málið. „Hann er með samning við Viking," sagði hann þegar hann var spurður hvort honum þætti líklegt hvort hann myndi skipta um félag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×