Menning

Tækjamanía og takmörkuð not

Sýning Kling og Bang: Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Pétur Arnar Friðriksson
Sýning Kling og Bang: Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Pétur Arnar Friðriksson

Listamennirnir Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Pétur Örn Friðriksson opna sýningar í Kling og Bang Galleríi í dag.

Þeir félagar hafa undanfarin sjö ár haldið sameiginlegar sýningar með yfirskriftinni Markmið, en nú sýna þeir hvor í sínu lagi – þó með sömu yfirskrift.

Sýning Helga er framhald einkasýningar hans og geymir meðal annars brjóstvarnir úr timbri en Pétur Örn líkir sinni við framhaldssögu þar sem hann endurvinnur á kunnuglegan hátt þau viðfangsefni sem verið hafa honum hugleikin undanfarin ár. Á sýningu hans má til að mynda sjá skrifborð sem um leið er farartæki en þeir félagar hafa brugðið sér í ham uppfinningamanna í gegnum tíðina og smíðað ýmis ólíkindatól með hjálp kraftmikilla handverkfæra.

Drengir á öllum aldri hafa löngum verið heillaðir af möguleikum tóla og tækja en í kynningartexta sýningarinnar er vísað til þeirrar gósentíðar sem nú ríkir meðal slíks áhugafólks „...risajeppar, seglbretti og önnur óvenjuleg farartæki eiga sér dyggan aðdáendahóp, sem þreytist seint á að breyta, bæta, styrkja og búa til ný hlutverk fyrir þessi leikföng lífsgleðinnar. Tækjamanía er orðin viðurkenndur lífsstíll.“

Listamennirnir hafa unnið að því, bæði í sameiningu og hvor á sinn hátt að færa þessa ástríðu yfir á svið myndlistarinnar, til dæmis með því að hanna og smíða fararskjóta fyrir nær óhugsandi aðstæður, furðuleg tæki með vafasamt notagildi og vélar sem vart geta sinnt hlutverki sínu.

Sýningin verður opnuð kl. 17.30 í dag og stendur til 4. mars. Galleríið er opið fimmtudaga til sunnudaga frá klukkan 14–18.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×