Erlent

Neitar að hafa orðið Madeleine að bana

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kate McCann og Gerry maður hennar eru sökuð um að hafa orðið Madeleine litlu að bana.
Kate McCann og Gerry maður hennar eru sökuð um að hafa orðið Madeleine litlu að bana. Mynd/ AFP
Gerry McCann, faðir Madeleine McCann, svaraði í gær ásökunum portúgalsks dagblaðs. Blaðið hefur sakað foreldrana um að myrða Madeleine með því að byrla henni lyf. Gerry segir fullyrðingarnar vera rógburð.

Blaðið Tal & Qual fullyrti að lögreglan ynni samkvæmt þeirri kenningu að McCann hjónin hefðu óvart gefið stúlkunni ofskammt af lyfjum. Síðan hefðu þau hylmt yfir andlátið og losað sig við lík stúlkunnar.

„Ég trúi þessu ekki. Þetta er algjör vitleysa, eintómar getgátur, tómt rugl. Þetta er ótrúlega særandi. Jafnvel þótt einhver gæti ímyndað sér þetta þá eru engar sannanir," sagði Gerry í samtali við fjölmiðla.

„Lögreglan telur að foreldrarnir hafi myrt Madeleine," var skrifað á forsíu Tal & Qual. Blaðamaðurinn sagði að ekki ætti að ýta til hliðar þeirri tilgátu að litla telpan hafi látist vegna ofnotkunar lyfja. Annað dagblað greindi frá því að blóðblettir hefðu fundist í bíl sem foreldrarnir höfðu tekið á leigu. Bæði blöðin sögðu að upplýsingar þeirra kæmu frá hátt settum lögreglumönnum.

Gerry sagði að honum hryllti við ef portúgölsk yfirvöld væru að leka upplýsingum um rannsóknina. Portúgölsk yfirvöld stærðu sig af því að geta haldið rannsóknarupplýsingum leyndum.

Blaðamaður Tal & Qual segist ekki geta upplýst hver heimildarmaður hennar sé en hann sé nátengdur rannsókninni. „Þetta er ekki mín persónulega skoðun. Ég vil helst trúa því að þetta sé vitleysa og foreldrarnir séu saklausir," segir blaðamaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×