Viðskipti innlent

Nova býður upp á MSN í farsímann

Þorsteinn Guðmundsson er DJ Nova og tekur hann á móti gestum á vefsíðunni nova.is
Þorsteinn Guðmundsson er DJ Nova og tekur hann á móti gestum á vefsíðunni nova.is

Nýtt samskiptafyrirtæki - Nova - boðar breytta notkun farsímans með tilkomu netsins í símann. Meðal fjölmargra nýjunga sem Nova kynnti á blaðamannafundi í verslun sinni að Lágmúla 9 í dag, föstudaginn 30 nóvember, er MSN í farsímann og Vinatónar.

Í tilkynningu um málið segir að hjá Nova býðst viðskiptavinum að fara á netið og spjalla saman á MSN í farsímanum. Um 150 þúsund Íslendingar nota MSN, en sá hópur hefur fram til þessa þurft að sitja við tölvu til að geta notað þetta vinsæla samskiptaform.

Vinatónar er ný þjónusta Nova sem gerir hinn hefðbundna biðsón úreltan. Þegar hringt er í viðskiptavini Nova þá heyrir sá sem hringir ekki bara gamla taktfasta biðsóninn heldur tónlist sem viðskiptavinur Nova velur.

„Í dag má segja að netið sé stærsti skemmtistaður í heimi. Þar „hittir" fólk vini sína, kynnist nýju fólki, spjallar, ræðir þjóðmálin, deilir sögum og reynslu og sækir sér upplýsingar og fróðleik - allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Viðskiptavinir Nova fá nú aðgang að óendanlega stórum skemmtistað í gegnum farsímann, stað sem er alltaf opinn," segir Liv Bergþórsdóttir framkvæmdastjóri Nova.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×