Fótbolti

Garðar með tilboð frá öðru félagi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson.
Garðar Gunnlaugsson. Mynd/Sænska knattspyrnusambandið

Garðar Gunnlaugsson segist vera með tilboð frá efstudeildarfélagi í Evrópu í samtali við sænska fjölmiðla. Hann er þó enn samningsbundinn Norrköping í Svíþjóð.

„Ég vil ekki segja hvaða félag þetta er," sagði Garðar. „En það er í Evrópu, spilar í efstu deild og er í landi þar sem veðurfarið er aðeins hlýrra en í Svíþjóð. Deildin er líka betri en sú sænska."

Garðar sagði enn fremur að hann hefði ekki áhuga að vera áfram í Norrköping bara til þess eins að vera þar. Ef honum bærist betra tilboð bæri honum að hugsa um fjölskyldu sína enda væri um starf sitt að ræða.

Hann sagði að hann hefði viljað skrifa undir nýjan tveggja ára samning í sumar en að viðræðurnar hafi runnið út í sandinn.

Michael Andersson, yfirmaður íþróttamála hjá Norrköping, sagði að ef rétt reyndist væri um brot að ræða þar sem Garðar mætti ekki ræða við önnur félög án vitundar Norrköping. Félagið myndi því sækja rétt sinn.

Norrköping hefur þegar misst Stefán Þórðarson og Bruno Santos en þeir voru markahæstu leikmenn liðsins síðustu tvö tímabil á undan því sem nýlokið er. Í sumar varð Garðar markahæsti leikmaður sænsku 1. deildarinnar með átján mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×