Menning

Örsaga Ellýjar veldur usla

Ellý Ármanns segir örsögur sínar vera uppspuna frá a til ö.
Ellý Ármanns segir örsögur sínar vera uppspuna frá a til ö.

„Þeir hringdu í mig endaði stoppaði síminn ekki hjá þeim. Ég bað þá afsökunar, breytti færslunni og þeir tóku þessu bara vel,“ segir Ellý Ármanns, einn vinsælasti bloggari landsins.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær skrifaði Ellý fyrir skömmu umdeilda sögu á bloggsíðu sína sem fékk misgóðar undirtektir. Í sögunni er fertug vinkona Ellýjar sögð hafa táldregið sextán ára gamlan dreng sem var að vinna í garðinum hjá henni. Drengurinn var sagður vinna hjá fyrirtækinu Garðlist.

„Örsögurnar eru skáldskapur frá a til ö og auðvitað hélt ég að allir áttuðu sig á því,“ segir Ellý. „Þeir hjá Garðlist tóku þessu bara vel en ég hef lent í öðru fyrirtæki þar sem allir urðu hræddir og reiðir. Þá skrifaði ég um notalegan nuddara sem starfaði í heilsulind. Ég var beðin um að taka þetta strax út og starfsfólk heilsulindarinnar og viðskiptavinir ræddu þetta víst sín á milli.“

Brynjar Kjærnested, framkvæmdastjóri Garðlistar, staðfesti að fólk hefði haft samband við hann vegna bloggfærslu Ellýjar. „Við urðum varir við þetta í gærmorgun og höfðum samband við Ellý sem baðst afsökunar á þessu. Þetta var uppspuni hjá henni en það voru ekki allir sem tóku þessu sem slíku,“ segir Brynjar og bætir við að um sjötíu manns starfi hjá fyrirtækinu. „En það er enginn sextán ára strákur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.