Innlent

Vísitala gosverðs framtíðin?

Forstjóri Neytendastofu vill auðvelda aðgengi neytenda að upplýsingum um vöruverð og að verð verslana verði sótt í gagnagrunna þeirra og þaðan miðlað til neytenda. Þannig gætu neytendur auðveldlega séð hvar og hvenær sé ódýrast að versla.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði Tryggvi verðkannanir ASÍ vera úreltar og kom með þá hugmynd að Neytendastofa myndi annast verðkannanir í samstarfi við verslanir og að upplýsingar myndu verða sóttar rafrænt í gagnagrunna verslananna. Tryggvi var gestur í hádegisviðtali Stöðvar 2 í dag þar sem hann viðraði þessar hugmyndir frekar.

Þar sagði hann þessar hugmyndir myndu gera það að verkum að í framtíðinni gætu neytendur með einföldum hætti fylgst með verði einstakra verlsana og vörutegunda á netinu og þannig jafnvel metið hvaða vöru væri ódýrast að versla hverju sinni og hvar. Sem dæmi nefndi hann að þekkt væri erlendis frá að gos lækkaði í verði á fimmtudögum og ef neytendur gætu fengið slíkar upplýsingar á auðveldan hátt gætu þeir hagað innkaupum sínum eftir því. Þannig væri til að mynda hægt að skoða vísitölu gosdrykkja eða matarkarfa og svo framvegis.

Tryggvi sagði ennfremur að vissulega gerði hann sér grein fyrir því að þessar upplýsingar væru viðkvæmar á markaðnum en vonaðist til að verlslunareigendur væru tilbúnir til að skoða hvort þetta væri framkvæmanlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×