Erlent

Mótmæli vegna fjögurra ára afmælis Íraksstríðsins

MYND/AP

Mótmæli hafa farið fram víða í dag í tilefni þess að fjögur ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkjamenn réðust ásamt bandamönnum sínum inn í Írak og steyptu Saddam Hussein, forseta landsins, af stóli.

Þúsundir manna komu saman fyrir framan Hvíta húsið í gærkvöld til að lýsa yfir andúð sinni á stríðinu og voru yfir 200 manns handteknir í mótmælunum. Í dag héldu mótmælin áfram í höfuðborginni Washington þar sem lögregla þurfti að stía í sundur andstæðingum og stuðningsmönnum stríðsins.

Í Svíþjóð safnaðist fólk saman víða í landinu í dag til að mótmæla stríðinu, þar á meðal í höfuðborginni Stokkhólmi þar sem um 1500 manns gengu um götur og fóru að sendiráði Bandaríkjanna með mótmælaskjal sem sendiherrann tók við. Þá komu yfir 3000 manns saman á tveimur stöðum í Istanbúl í dag í sömu erindagjörðum.

Hér á landi héldu Samtök hernaðarandstæðinga fund á Akureyri vegna málsins og á mánudag verður annar fundur í Austurbæ á vegum nokkurra aðila og hefst hann klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×