Fótbolti

15 félög á eftir Beckham?

David Beckham er á milli steins og sleggju þessa dagana.
David Beckham er á milli steins og sleggju þessa dagana. MYND/Getty

Enska slúðurblaðið News of the World heldur því fram að 15 félög hafi sett sig í samband við umboðsmann David Beckham, með það fyrir augum að fá fyrrum enska landsliðsfyrirliðann til sín nú í janúar. Samningur Beckham við Real Madrid rennur út í sumar og honum er nú frjálst að ræða við önnur lið.

Blaðið tilgreinir ekki hvaða félög er um að ræða en haft er eftir Ramon Calderon, forseta Real, að tveggja ára samningur liggi á borðinu, tilbúin til undirskriftar. “Boltinn er hjá Beckham. Allir hér hjá félaginu vilja að hann verði áfram en framtíðin er undir honum sjálfum komin,” sagði Calderon.

Beckham sjálfur sagði fyrir nokkru að hann hyggðist ekki fara frá Real nú í janúar heldur myndi hann frekar bíða fram á sumar. Honum er hins vegar frjálst að semja við hvaða félag sem er nú þegar innan við sex mánuðir eru eftir af samningi hans.

Dagblaðið Marca á Spáni slær upp fyrirsögn í morgun þar sem segir að stuðningsmenn Real vilji frekar sjá franska landsliðsmanninn Frank Ribery hjá liðinu heldur en Beckham. Vísað er til niðurstaðna skoðanakönnunar á netinu þar sem spurt var hvort stuðningsmenn vildu frekar sjá Ribery eða Beckham á hægri vængnum. 71% gáfu Ribery sitt atkvæði. Hinn 23 ára gamli leikmaður Marseille hefur lengi verið orðaður við Real og er jafnvel talið að félagið muni bjóða í hann nú í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×