Erlent

Upptaka af loftárás á bandamenn

Breskir fjölmiðlar birtu í dag myndband sem er sagt sýna bandaríska hermenn fella breskan bandamann sinn í loftárás í Írak fyrir tæpum 4 árum. Myndbandið hefur valdið miklu fjaðrafoki í Bretlandi.

Það var í lok mars 2003 sem bandarísk A-10 orustuþota skaut á lest brynvarinna bíla í Basra. Breskur hermaður féll og fjórir særðust. Síðan þá hafa bæði breski og bandaríski herinn rannsakað atvikið. Réttarrannsókn á dauða hermannsins hefur tafist nokkuð og var frestað í síðustu viku þar sem myndband úr stjórnklefa orustuþotunnar fékkst ekki afhent. Var breska varnarmálaráðuneytinu gefinn frestur til að fá leyfi bandarískra hermálayfirvalda til að birta myndbandið.

Breska götublaðið Sun og AP fréttastofan hafa komist yfir myndbandið og birtu það í dag. Fram kemur í blaðinu að flugmennirnir hafi séð að bifreiðarnar voru merktar appelsínugulum lit sem er tákn Atlantshafsbandalagsins um að bandamenn séu á ferð. Flugmennirnir munu þá hafa spurt yfirmann sinn á jörðu niðri hvort bandamenn væru á svæðinu. Því hafi hann neitað og þá hafi verið skotið á bílalestina. Síðan hafi flugmönnunum borist fréttir af því að einn hefði fallið og það bandamaður þeirra. Á myndbandinu má heyra hvar þeir bölva, harma atburðinn og óttast jafnvel að þeir eigi yfir höfði sér fangelsisdóm.

Margaret Beckett, utanríkisráðherra Breta, sagði í dag að atburðurinn yrði rannsakaður til hlítar í samvinnu við Bandaríkjamenn. Fulltrúar Sun afhentu dánardómstjóra myndbandið í dag og skömmu síðar afléttu Bandaríkjamenn leynd af því. Myndbandið verður því notað við réttarrannsókn á dauða breska hermannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×