Innlent

3 milljónir króna í miskabætur raunhæfar

Saga drengjanna í Breiðavík sýnir hvernig samfélagið getur framleitt afbrotamenn, segir Guðrún Ögmundsdóttir. Hún segir ekki óraunhæft að borga fórnarlömbum ofbeldis í Breiðavík þrjár milljónir í miskabætur fyrir þjáningar sínar.

Talið er að um 100 börn hafi búið við skelfilegar aðstæður í Breiðavík á sjötta og sjöunda áratugnum. Guðrún Ögmundsdóttir þingmaður Samfylkingar mætti í hádegisviðtalið í dag og er slegin eins og flestir af frásögnum manna sem dvöldu þar sem drengir.

Fyrsta skrefið, segir Guðrún, er þó að rannsaka málið. "Það þarf náttúrlega að skoða gömul gögn, ræða við alla þessa einstaklinga og gera opinbera skýrslu um málið."

Sömuleiðis þarf að skoða hvað nágrannaþjóðir okkar hafa gert í viðlíka málum. Guðrún segir um þrjú ár síðan Norðmenn fóru að rannsaka ofbeldismál á vistheimilum barna í Noregi. Í kjölfarið samþykkti norska Stórþingið að greiða fórnarlömbum ofbeldis á slíkum heimilum þrjár milljónir króna í miskabætur. Það er ekki óraunhæf tala, segir Guðrún. Bætur hrökkvi þó ekki til, mennirnir þurfi aðstoð við að vinna úr sinni erfiðu reynslu. Hún telur hið opinbera þurfa að axla ábyrgð á því að senda börn í vist á þennan stað og finna sátt í málinu svo mennirnir fái uppreisn æru. "Mér finnst þetta líka segja okkur það hvernig samfélag getur búið til afbrotamenn. Við verðum að taka alvarlega okkar minnstu bræður. Við getum ekki sagt að allt sé leyfilegt gagnvart þeim af því að þeir séu ýmist dópistar eða eitthvað annað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×