Viðskipti innlent

Kaupþing spáir 0,2 prósenta hækkun VNV

Kaupþing.
Kaupþing. Mynd/GVA

Hagstofan birtir verðbólgutölur fyrir febrúar á mánudag. Greiningardeild Kaupþings spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,2 prósent á milli mánaða en gangi það  eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 7,2 prósent.

Greiningardeildin segir Hálffimmfréttum sínum í dag að mun hærra matvælaverð sem og hækkun á verðskrá hótela og veitingastaða leiða hækkunina en útsöluáhrif og lækkun eldsneytisverðs vega á móti.

Deildin segir að áhrifa af lækkun virðisaukaskatts á matvæli muni gæta í vísitölumælingu Hagstofunnar í mars og býst við verðhjöðnun milli mánaða sem muni leiða til þess að tólf mánaða gildi vísitölunnar tekur dýfu. Vitnar deildin til þess mats Hagstofunnar að áhrif skattlækkana muni leiða til um 1,9% lækkunar á vísitölu neysluverðs milli mánaða með ákveðnum fyrirvörum.

Greiningardeildin segir ekki ljóst hvort öll áhrif skattalækkana skili sér í vasa neytenda og býst því við að vísitalan lækki í mesta lagi um 1% í mars frá fyrra mánuði. Gangi það eftir eru líkur á að tólf mánaða verðbólga verði í kringum 5% í næsta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×