Körfubolti

Hardaway úti í kuldanum

Tim Hardaway hefur unnið sem þulur fyrir NBA-sjónvarpsstöðina á síðustu árum. Hann verður það væntanlega ekki mikið lengur.
Tim Hardaway hefur unnið sem þulur fyrir NBA-sjónvarpsstöðina á síðustu árum. Hann verður það væntanlega ekki mikið lengur. MYND/Getty

Ummælin sem Tim Hardaway lét falla í gær um John Amaechi og annað samkynheigt fólk hafa vakið gríðarlega athygli í Bandaríkjunum. Hardaway hefur verið útilokaður frá allri kynningarstarfsemi í kringum stjörnuleik NBA sem fram fer á sunnudaginn. Amaechi sjálfur segir orð Hardaway vera lituð hatri í garð samfélags samkynheigðra.

"Allt sem hann sagði er litað hatri. Ummæli hans virðast hafa kveikt þráðinn hjá mörgum öðrum sem eru á hans skoðun og ég hef fengið fjölda tölvupósta sem halda ljót skilaboð í sama dúr. Ég vissi ekki að ástandið væri svona slæmt," sagði Amaechi í gær en bætti þó við að hann finni miklu frekar fyrir stuðning.

"En þeir leynast inn á milli, einstaklingar sem vilja skapa svona hörmulegt andrúmsloft. Það er einmitt þessi hugsunarháttur sem gerir líf samkynheigðra skólabarna hörmulegt. Það eru greinilegir fordómar til staðar og við sjáum einstaklingum sífellt refsað fyrir það eitt að vera hommi eða lesbía," segir Amaechi.

David Stern, framkvæmdastjóri NBA-deildarinnar, segir ummæli Hardaway afar óheppilegt og hefur hann ákveðið að útiloka Hardaway frá allri þáttöku í dagskránni í kringum stjörnuleik NBA, sem fram fer á sunnudagskvöldið. "Það var óviðeigandi af honum að tjá sig um þetta mál, þar sem skoðanir hans eru algjörlega á öndverðum meiði við þær sem NBA-deildin hefur," sagði Stern.

Hardaway hefur einnig unnið að margskonar góðgerðarstarfsemi í tengslum við NBA-deildina á síðustu árum, sem og unnið sem þulur fyrir NBA-sjónvarpsstöðina. Hann má búast við því að verða rekinn úr þeim störfum á næstu dögum.

Hardaway, sem lék fimm stjörnuleiki á ferli sínum í NBA-deildinni á sínum tíma, sagðist hata homma í útvarpsviðtali í gær og að hann vildi helst að þeim yrði útrýmt á alheimsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×