Fótbolti

Upphitun fyrir Real Madrid - Bayern Munchen

NordicPhotos/GettyImages

Leikur Real Madrid og Bayern Munchen á Bernabeu í kvöld verður sýndur beint á Sýn Extra klukkan 19:30 í kvöld. Þetta verður 17 leikur liðanna í Evrópukeppni og þegar sagan er skoðuð er ljóst að þýska liðið hefur nokkuð tak á því spænska.

Liðin hafa mæst sex sinnum í Evrópukeppni meistaraliða og tíu sinnum í Meistaradeildinni - alls sextán sinnum. Bayern hefur unnið hvorki meira né minna en níu af þessum leikjum, aðeins tvisvar hefur verið jafntefli og Real hefur unnið fimm. Allir sigrar Real gegn Bayern hafa komið á heimavelli, þar sem liðið hefur unnið fimm, gert eitt jafntefli og tapað tveimur.

Real hefur þó sótt í sig veðrið í síðustu viðureignum liðanna og hefur unnið tvo síðustu heimaleiki sína gegn þýska liðinu. Síðasti leikur liðanna var 10. mars 2004 á Bernabeu þar sem Real vann 1-0 með marki frá Zinedine Zidane. Real hefur aðeins tapað fimm sinnum á heimavelli í Meistaradeildinni og þar af eru tvö tapanna gegn Bayern.

Real Madrid er sigursælasta lið í sögu Evrópukeppninnar og hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða/Meistaradeildina samtals níu sinnum og Evrópukeppni félagsliða tvisvar. Félagið heldur upp á 50 ára afmæli þáttöku sinnar í Evrópukeppni í ár.

Bayern hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða/Meistaradeildina fjórum sinnum - síðast árið 2001 með sigri á Valencia í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Þetta er níunda árið í röð sem Bayern er í Meistaradeildinni en ellefta árið í röð hjá Real Madrid. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×