Fótbolti

Spenna í Meistaradeildinni í kvöld

Leikmenn Barcelona æfa á Anfield í gærkvöldi
Leikmenn Barcelona æfa á Anfield í gærkvöldi AP

Fjögur lið munu í kvöld tryggja sér farseðilinn í 8 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Evrópumeistarar Barcelona þurfa að skora minnst tvö mörk á heimavelli Liverpool til að falla ekki úr keppninni.

Sá leikur sem mesta athyglin er á fer fram á Anfield í Liverpool í kvöld þar sem Eiður Smári Guðjohnsen og félagar í Barcelona þurfa að vinna upp 2-1 tap úr fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum. Fjölmiðlar hittu Liverpool liðið í gær þar sem það var við æfingar á Melvood æfingasvæði félagsins. Rafael Benitez þjálfari Liverpool segir að áætlun sinna manna verði ekki að verja forystuna heldur sækja til sigurs og þar skipti miklu máli að vera á heimavelli með sína stuðningsmenn bak við sig.

Barcelona hefur ekki náð að komast áfram í útsláttarkeppninni eftir að hafa tapað fyrri leiknum á heimavelli síðan árið 1966. Ekki er þó öll nótt úti fyrir Katalóníuliðið í þessu sögulega samhengi, því liðið vann 3-1 sigur þegar það heimsótti Anfield síðast - í riðlakeppni Meistaradeildarinnar árið 2001. Spænskir fjölmiðlar hafa stillt upp líklegu byrjunarliði Barcelona sem verður í sókndjarfara laginu. Þrír í vörn, fjórir á miðjunni og þrír leikmenn í framlínunni, Leonel Messi, Ronaldhinó og Samuel Etú en Eiður Smári samkvæmt því á varamannabekknum.

Tapleikur Liverpool á Anfield gegn Manchester United á sunnudaginn var fyrsta tap liðsins á heimavelli sínum í 30 leikjum.

Txiki Begui-ristain, yfirmaður knattspyrnumála hjá Barcelona, segir að fyrst Liverpool geti tapað á heimavelli fyrir liðum eins og Arsenal og Manchester United geti það líka tapað þar fyrir Barcelona.

Leikur Liverpool og Barcelona verður sýndur beint á Sýn hefst klukkan 19:45. Leikur Chelsea og Porto verður á Sýn Extra á sama tíma en liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í Portúgal. Þá verður leikur Valencia og Inter Milan á Sýn Extra 2 en fyrri leiknum lauk með 2-2 jafntefli á heimavelli Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×