Hlutfall vanskila af útlánum innlánsstofnanna lækkaði úr tæplega 0,7 prósentum í lok þriðja ársfjórðungs í fyrra í rúmlega 0,5 prósent í lok síðasta árs og hafa vanskil ekki verið jafn lítil í sex ár, samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu, sem hefur tekið saman tölur um vanskil útlána hjá innlánsstofnunum miðað við árslok 2006 og samanburð við næstu ársfjórðunga á undan.
Talnaefnið nær til vanskila sem staðið hafa lengur en 1 mánuð.
Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri FME segir á vef eftirlitsins að vanskil útlána fyrirtækja og einstaklinga hafa verið með lægsta móti í lok árs 2006. „Ein skýring á lágum vanskilum er aukin hlutdeild lána með veði í íbúðarhúsnæði á síðustu misserum en reynslan sýnir að þeim fylgja minni vanskil og tapshætta. Að því leytinu er útlánaáhætta banka og sparisjóða dreifðari en áður var," segir Ragnar.